Árið 2023 er handan við hornið og nú fer hver að verða síðastur að uppfæra vefsíður í takt við breyttar áherslur notenda
Á komandi árum verður sífellt meiri áhersla lögð á upplifun notenda á vefnum og því mikilvægt að fyrirtæki og einstaklingar mæti þeim þörfum af metnaði og sköpunargleði.
Einfaldleiki og minimalismi í vefhönnun er að koma til baka. Sömuleiðis handteiknuð hönnun og notkun myndbanda og annarra dýnamískra þátta í upplifun á vefnum. Mikil áhersla verður á snjallsíma og öpp en vefsíður eru ekki síður mikilvægur hluti af heildarmyndinni.
Eftirfarandi eru 8 vel valdar hugmyndir og stefnur í vefhönnun fyrir árið 2023
1. Handteiknað og sérsniðið
Hvernig getum við greint okkar vöru eða fyrirtæki frá öðrum? Eitt hönnunarmynstur fyrir 2023 eru sérsniðnar teikningar (e. illustrations) og handteiknuð grafísk hönnun. Slík hönnun getur blásið lífi í vefsíður fyrirtækja og einstaklinga. Á síðustu árum hefur almenn grafísk hönnun og ljósmyndir, jafnvel ókeypis stokkmyndir (e. stock photos), verið vinsælar í vefsíðugerð. Á næsta ári munu þær hins vegar víkja fyrir handteiknuðu og sérsniðnu sem vekur athygli og eykur sérstöðu í hönnun.
Dæmi: https://www.byalicelee.com/
2. Litir
Litur ársins 2023 er A.I. Aqua – blár litur innblásinn af tækni og framtíð – samkvæmt WGSN og Coloro. Kaldir dökkbláir og blágráir litir verða vinsælir fyrir bakgrunna og svæði á vefsíðunni sem veita upplýsingar. Heitir appelsínugulir og rauðir litir, sem og grænir, verða hins vegar vinsælir fyrir hnappa og CTA (e. call to action).
Aðrir litaflokkar sem vert er að skoða eru nátturulega grænir (lime, mosi og aðrar plöntur), pastel bláir, hlýir brúnir og ljósbleikir.
Loks má nefna að litastiglar (e. gradients) verða áfram vinsælir. Með þeim má sameina tvo liti sem renna saman á þægilegan hátt. Sömuleiðis verða svokölluð Duotone áhrif (e. Duotone effect) áfram vinsæl en þau sameina tvo ólíka og oft skæra liti til að draga fram athygli og áhuga notandans.
3. Heilsíðuhausar
Upp á síðkastið höfum við séð sífellt fleiri vefsíður notast við heilsíðuhausa (e. full-page headers) til að draga fram ákveðin skilaboð. Hvort sem notast er við bakgrunnsgrafík eða jafnvel ljósmynd þá virðist lenskan vera að skipta hausnum í tvennt – vinstri hlutinn geymir mikilvægar upplýsingar og CTA (e. call-to-action), en hægri megin er áberandi mynd eða hönnun sem vekur athygli. Ástæðan fyrir þessu er að notendur verja almennt mestum tíma í efra vinstra horni vefsíða.
Dæmi: https://discord.com/nitro
4. Parallax skroll
Þetta er tiltölulega ný þróun í vefsíðugerð sem gerir notandanum kleift að ferðast um vefsíðuna og uppgötva mismunandi svæði hennar líkt og í fjársjóðsleit. Vefsíður sem nota Parallax skroll leggja oft mikla áherslu á upplifun notandans og skemmtigildi – það er jafnvel eins og vefsíðan sé að reyna að segja manni eitthvað. Þá má flétta inn myndir, hljóð og myndbönd til að gera ferðalagið enn skemmtilegra.
Dæmi: https://the-goonies.webflow.io/
5. Teiknaðir músabendlar
Parallax skroll er dæmi um dýnamíska nálgun á notendaupplifun. Annað dæmi um slíka áherslu eru teiknaðir músabendlar (e. animated cursors). Margt bendir til þess að slíkir bendlar verði vinsælir á næsta ári en með þeim má bæði veita notendum upplýsingar og vekja áhuga. Teiknaðir bendlar breytast oft eftir því hvar notandinn er á síðunni – bendlar geta hvatt notendur til að skoða myndir eða myndbönd, þeir geta líka hreyft við bakgrunni og jafnvel snúið sjónarhorni til að gefa þrívíddaráhrif.
Dæmi: https://paolofornasier.com/
6. Áhersla á hvít svæði
Vefsíður byggðar með áherslu á hvít svæði annars vegar og vel valda liti hins vegar eru líklegar til að ná árangri á komandi árum. Hvít svæði milli auðvelda notandanum að finna mikilvægar upplýsingar. Auk þess eru þau almennt þægilegri fyrir augun.
Dæmi: https://mylesnguyen.com/
7. Ósamhverf hönnun
Á sama hátt og handteiknuð hönnun er að færast í aukana er ósamhverfa í vefhönnun einnig komin til að vera. Vel valið misræmi getur vakið athygli og áhuga notenda. CSS Grid Layout kerfið, stundum kallað “Grid”, gerir vefhönnuðum kleift að byggja ósamhverfu á vefsíðum á auðveldari hátt en áður.
Með því að nota Grid kerfið er auðveldlega hægt að byggja einfalda en frumlega hönnun – eitthvað sem notandinn hefur ekki séð áður.
Dæmi: https://jingqi.work/
8. Scrolling cards
Síðasta hugmyndin fyrir vefhönnun árið 2023 eru svokölluð “scrolling cards” sem gefa notendum kleift að ferðast lárétt eða lóðrétt á vefsíðum og í öppum. Þau eru sérstaklega sniðug fyrir myndir, vörur eða upplýsingar sem þarf að miðla í skrefum.
Dæmi: https://oficina.design/