Breytingar hjá Google!
Þann 1. júlí 2023 mun Google Analytics, einnig nefnt Universal Analytics (UA), hætta að safna gögnum um neytendahegðun.
Þess í stað kemur ný útgáfa – Google Analytics 4 (GA4) – með tilheyrandi breytingum og uppfærslum. En af hverju er verið að skipta um kerfi?
Og það sem meira máli skiptir, hvernig kemur þetta okkur við?
Stutta svarið er að tækniþróun í bland við breytta löggjöf, til að mynda er varðar persónuvernd, hefur gjörbreytt landslagi stafrænnar markaðssetningar. Neytendur þróast áfram og breytt neytendahegðun fylgir með. Fyrirtæki verða að mæta þessari þróun með réttum tæknilausnum.
Fyrir þau ykkar sem eigið eftir að klára yfirfærsluna bendum við á sérfræðinga Allra Átta sem geta aðstoðað ykkur hratt og örugglega.
Af hverju er GA4 betra?
Það eru nokkur atriði sem gera Google Analytics 4 (GA4) að betra kerfi heldur en fyrri útgáfur Google Analytics. Nýja kerfið er í samræmi við persónuvernd og býður upp á greiningaraðferðir sem munu nýtast á komandi árum og jafnvel áratugum (e. future-proof).
- Minni sóun í markaðsstarfi
Með GA4 geturðu nálgast samræmdar mælingar um neytendahegðun á vefsíðum og í gegnum öpp – allt á einum stað. Kerfið býður einnig upp á forspármælingar á hugsanlegum tekjum frá mismunandi viðskiptavinum. Með slíkar upplýsingar til hliðsjónar má sérsníða markaðsstarf að ólíkum hópum neytenda. - Marktækari mælingar
Ný nálgun GA4 á mælingar eykur skilning fyrirtækja á hegðun neytenda. Notast er við atburðatengda mælingu (e. event-based tracking) í stað þess að einblína á heimsóknir (e. session-based tracking). Þannig má sjá einstaka snertingar notenda á vefsíðu eða appi, til dæmis þegar notandi klárar kaup. Enn fremur leggur GA4 áherslu á virkni notenda (e. engagement) fram yfir heimsóknir eða brotthvarf (e. bounce). - Persónuvernd og GDPR
GA4 innleiðir tæknilausnir á borð við gervigreind og vélrænt nám (e. machine learning) til að fylla í eyður gagnasöfnunar sem skapast með aukinni persónuvernd. Notendur hafa meiri stjórn á eigin gögnum og gervigreindin gerir fyrirtækjum kleift að lesa í og nýta gögnin í samræmi við persónuverndarlög og GDPR. Þó þarf að passa að uppsetning kerfisins sé rétt en þar koma sérfræðingar okkar til sögunnar. - Betri skýrslur
Nú má sérsníða skýrslur til að innihalda mismunandi mælikvarða eftir því hvað notendur vilja sjá. Kerfið býður upp á einfaldar sem og ítarlegar skýrslur ásamt nýrri greiningartækni sem hjálpar notendum að lesa í hegðun neytenda og taka ákvarðanir út frá þeim.
Mælt er með því að einstaklingar og fyrirtæki nýti sér Google Analytics 4 ásamt eldri útgáfum Google Analytics eða Universal Analytics á meðan verið er að innleiða nýjar aðferðir.
Gögnin verða áfram sýnileg í Google Analytics en flokkun þeirra verður frábrugðin í GA4. Breytingin felur ekki í sér neinn aukakostnað og þess vegna mælum við með því að notendur ráðist í yfirfærsluna sem fyrst. Enn og aftur er vert að minna á að frá og með 1. júlí 2023 mun Google Analytics hætta að safna gögnum og Google Analytics 4 tekur við.
Ekki hika við að heyra í okkur hjá Allra Átta með hvers konar spurningar og vangaveltur sem kunna að vakna.